Fótbolti

Demba Ba kemst ekki lengur í landslið Senegal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Demba Ba.
Demba Ba. Mynd/Nordic Photos/Getty

Demba Ba, framherji Chelsea, er ekki lengur nógu góður til þess að komast í landslið Senegala. Alain Giresse, þjálfari landsliðsins, valdi Ba ekki í liðið fyrir leiki í undankeppni HM í næsta mánuði.

Senegal mætir Angóla og Líberíu en liðið er í efsta sæti í J-riðli eftir þrjár umferðir. Demba Ba hefur ekki skorað í undankeppninni og klikkaði á víti í jafntefli á móti Angóla í síðasta leik liðsins í mars.

„Ég hef ákveðið að velja hann ekki í þessa tvo leiki. Senegal á fullt af markaskorurum og ég ætla að gefa öðrum tækifæri í þessum leikjum," sagði Alain Giresse þegar hann tilkynnti 23 manna hópinn sinn.

Modou Sogou sem spilar með Marseille í Frakklandi kemur inn í hópinn fyrir Ba en aðrir framherjar hópsins eru þeir Papiss Demba Cisse hjá Newcastle, Moussa Sow hjá Fenerbahce, Mame Birame Diouf hjá Hannover 96 og Dame Ndoye hjá Lokomotiv Mosckvu.

Chelsea keypti Demba Ba frá Newcastle í janúarglugganum. Hann skoraði aðeins 2 mörk í 14 deildarleikjum með Chelsea en hafði skorað 13 mörk í 20 leikjum með Newcastle United á fyrri hluta tímabilsins. Demba Ba hefur skorað 4 mörk í 17 A-landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×