Fótbolti

Ekkert gengur hjá lærisveinum Ole Gunnar Solskjær

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd. / Getty Images
Fimm leikir fóru fram í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en það blæs ekki byrlega fyrir norsku meistarana í Molde en þeir náðu aðeins í stig gegn nýliðunum í Sandnes Ulf en leikurinn fór 0-0.

Lærisveinar Ole Gunnar Solskjær í Molde byrja því tímabilið skelfilega og eru í neðsta sæti deildarinnar með sex stig. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék allan tímann fyrir Sandnes Ulf.

Haugesund vann fínan sigur á Vålerenga 1-0 en Íslandsvinurinn Alexander Søderlund gerði eina mark leiksins. Toppliðið Strømsgodset vann góðan sigur á Brann 2-0 og er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 20 stig.

Tromsø valtaði yfir Íslendingaliðið Sarpsborg  5-0 á heimavelli en Þórarinn Ingi Valdimarsson, Guðmundur Þórarinsson og Ásgeir Börkur Ásgeirsson voru allir í byrjunarliðinu hjá Sarpsborg. Síðan vann  Sogndal fínan sigur á  Odd 2-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×