Fótbolti

Zlatan og Beckham meistarar í fjórða landinu á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham fagnar í leikslok.
David Beckham fagnar í leikslok. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paris St Germain varð í kvöld franskur meistari í fótbolta í fyrsta sinn í 19 ár þegar liðið vann 1-0 útisigur á Olympique Lyon. PSG er með sjö stiga forystu þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.  Zlatan Ibrahimovic og David Beckham voru báðir að verða meistarar í sínu fjórða landi.

Jeremy Menez skoraði eina mark leiksins á 53. mínútu leiksins eftir sendingu frá Thiago Motta. Markið tryggði ekki bara PSG meistaratitilinn heldur sér það einnig til þess að Marseille endar í öðru sætinu og er því búið að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næsta ári.

Zlatan Ibrahimovic tókst ekki að skora í kvöld en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með 27 mörk. Zlatan hefur nú orðið meistari í fjórum löndum en hann varð einnig meistari í Hollandi (Ajax), á Ítalíu (Juventus, Inter, AC Milan) og á Spáni (Barcelona).

David Beckham kom inn á sem varmaður í lokin en hann hefur eins og Zlatan orðið meistari í fjórum löndum eða í Englandi (Manchester United), á Spáni (Real Madrid) og í Bandaríkjunum (Los Angeles Galaxy).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×