Enski boltinn

Nýr stjóri fær fimmtán milljarða í leikmannakaup

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez, stjóri Chelsea, á ekki von á því að hann muni halda áfram sem knattspyrnustjóri liðsins á næstu leiktíð.

Liðið vann Evrópudeild UEFA í gær og er öruggt um þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Talið er líklegast að Jose Mourinho komi aftur til félagsins í sumar en hann er nú á mála hjá Real Madrid.

„Chelsea verður mun betra á næsta tímabili vegna þess að þeir munu eyða 100 milljónum evra [fimmtán milljörðum kr.] í leikmenn. Þeir munu kaupa þrjá eða fjóra leikmenn,“ sagði Benitez. „Grunnurinn er nú þegar til staðar og framtíðin er björt.“

Þýski framherjinn Andre Schürrle er líklegast á leið til Chelsea og þá hafa Hulk hjá Zenit St. Pétursborg og Fabio Coentrao, leikmaður Real Madrid, verið orðaðir við félagið.

Ólíklegt er að Falcao komi eins og talið var um tíma í vetur en hann er nú sterklega orðaður við Monaco í Frakklandi.

Fleiri leikmenn hafa verið orðaðir við Chelsea í ensku pressunni, til að mynda Wayne Rooney og Xabi Alonso.

„Ég veit ekki hver verður næsti stjóri Chelsea,“ sagði Benitez. „En það eru allir að tala um sama manninn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×