Enski boltinn

Benitez tekur ekki við Everton

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Chelsea vann Evrópudeildina undir stjórn Benitez.
Chelsea vann Evrópudeildina undir stjórn Benitez. Mynd/Nordic Photos/Getty

Rafael Benitez segir ólíklegt að hann muni taka við Everton í sumar eftir að David Moyes yfirgefur félagið til að taka við Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Núverandi lið Benitez Chelsea tekur á móti Everton á morgun í síðustu umferð tímabilsins. Það verður síðasti leikur Moyes með Everton og að öllum líkindum síðasti leikur Benitez með Chelsea.

Jose Mourinho er talinn líklegastur til að taka við af Benitez hjá Chelsea og er Spánverjinn að leita sér að nýju starfi, helst á Englandi og var hann því spurður hvort hann myndi taka við Everton í sumar.

„Það held ég ekki,“ sagði Benitez. „Ég ber mikla virðingu fyrir Everton og finnst liðið hafa staðið sig vel.

„Þetta er ekki auðvelt. Það er ekki mikið í boði.

„David Moyes hefur staðið sig mjög vel. Hann hefur verið hér lengi og haldið liðinu í efstu átta, efstu sex og fimm sætum deildarinnar. Ég óska honum alls hins besta í nýju starfi,“ sagði Benitez en Chelsea tryggir sér þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri í leiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×