Enski boltinn

Giggs tilbúinn að hjálpa Moyes

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Giggs vann 13 Englandsmeistaratitla undir stjórn Sir Alex Ferguson.
Giggs vann 13 Englandsmeistaratitla undir stjórn Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty

Reynsluboltinn og goðsögnin Ryan Giggs hjá Englandsmeisturum Manchester United segir að hann og aðrir eldri leikmenn liðsins muni styðja vel við bakið á nýjum knattspyrnustjóra félagsins, David Moyes. Hann segir þó að erfitt verk bíði hans sem arftaka Sir Alex Ferguson.

„David Moyes kemur inn í gott umhverfi þar sem fyrir eru góðir leikmenn sem ná vel saman innan sem utan vallar,“ sagði Ryan Giggs við breska dagblaðið Daily Telegraph. „Hann tekur við mjög sterkum hóp sem er í góðri stöðu.

„Gallinn er sá að hann er að taka við af sigursælasta knattspyrnustjóra allra tíma. Knattspyrnustjórar taka við yfirleitt við liðum þar sem gengur illa en þetta lið er ekki á niðurleið. Maður veit ekki hvort það sé betra eða verra fyrir David.

„Þetta eru góðir drengir í búningsklefanum og hvenær sem knattspyrnustjórinn þarf hjálp þá munu eldri leikmenn liðsins hjálpa. Þannig hafa hlutirnir alltaf gengið fyrir sig á mínum tíma hjá félaginu,“ sagði Giggs.

Giggs segir Moyes njóta mikillar virðingar meðal leikmanna Manchester United vegna þess árangurs sem hann náði með Everton á tíma sínum hjá bláklædda liði Liverpoolborgar.

„Hann hefur unnið frábært starf þar og maður finnur áþreifanlega fyrir því í hvert skipti sem maður leikur gegn liði hans, það er aldrei auðvelt.

„Nokkrir fyrrum leikmenn okkar hafa farið til Everton og notið mikillar velgengni, eins og Tim Howard og Phil Neville. Þeir hafa sagt okkur að hann vinni vel og ætlist til þess sama af leikmönnum sínum. Hann setur markið hátt og það er eitthvað sem við erum vanir að gera,“ sagði Giggs sem leikur sinn síðasta leik undir stjórn Sir Alex Ferguson, eina stjóranum sem hann hefur haft á löngum ferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×