Enski boltinn

Telegraph fær ekki aðgang að leikjum Newcastle

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle eru allt annað en sáttir við umfjöllun dagblaðsins Telegraph.

Dagblaðið greindi frá því í vikunni að ósætti ríkti á milli leikmanna félagsins. Newcastle steinlá á heimavelli gegn Liverpool um liðna helgi 6-0.

Lögmaður Newcastle sendi dagblaðinu bréf þar sem óskað var formlegrar afsökunar vegna umfjöllunarinnar og draga ætti fréttina tilbaka. Ella fengju blaðamaðurinn sem fréttina skrifaði og allir aðrir starfsmenn blaðsins ekki aðgang að St. James' Park á leikdögum og blaðamannafundum fyrir leiki liðsins.

Að vandlega íhuguðu máli hafa forsvarsmenn Telegraph ákveðið að draga umfjöllun sína ekki tilbaka. Á heimasíðu Telegraph kemur fram að dagblaðið harmi ákvörðun Newcastle. Blaðið muni þó áfram fjalla um Newcastle af hreinskilni og sanngirni frekar en að skrifa fréttir sem félagið kjósi að séu skrifaðar.

Umfjöllun Telegraph, þar sem fullyrt er að leikmenn skipist í tvær fylkingar í búningsklefanum, má sjá hér.

Allt það helsta úr viðureign Newcastle og Liverpool um helgina má sjá í spilaranum fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×