Enski boltinn

Líkir unglingastarfi Southampton við La Masia hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas og Gareth Bale.
Andre Villas-Boas og Gareth Bale. Mynd/NordicPhotos/Getty
Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóri Tottenham, er eins og fleiri, hrifinn af unglingastarfi Southampton. Hann líkir starfinu við það sem er unnið hjá hinni rómuðu La Masia knattspyrnuakademíu í Barcelona. Tottenham mætir Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Meðal leikmanna sem hafa komið í gegnum unglingastarfið hjá Southampton eru þeir Gareth Bale, Theo Walcott, Alex Oxlade-Chamberlain og Adam Lallana.

„Sum félög framleiða leikmenn en önnur leita upp leikmenn hjá öðrum félögum. Í Portúgal er Sporting Lisbon félagið sem er með gott unglingastarf og þaðan hafa komið margir frábærir leikmenn," sagði Andre Villas-Boas.

„Þeir hafa samt ekki náð að fylgja því eftir inn á vellinum undanfarin ár. Porto fjárfestir hinsvegar í eldri leikmönnum og leggur ekki áherslu á unglingastarfið," segir Villas-Boas.

„Southampton er í flokki með liðum eins og Sporting Lisbon og Barcelona sem fá öll upp góða leikmenn í gegnum unglingastarfið sitt," segir Villas-Boas.

Tottenham hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir mikið unglingastarf en það er að breytast og hjá félaginu eru ungir uppaldir leikmenn sem eru líklegir til afreka. Þetta eru menn eins og þeir Steven Caulker, Andros Townsend og Tom Carroll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×