Enski boltinn

Hull upp í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Hull fagna.
Leikmenn Hull fagna. Mynd/NordicPhotos/Getty
Hull City tryggði sér annað sætið í ensku b-deildinni í fótbolta og þar með sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á næsta ári með því að gera 2-2 jafntefli við Cardiff í lokaumferðinni í dag. Það var mikil dramatík út um alla töflu þegar 46. og síðasta umferð ensku b-deildarinnar fór fram í dag.

Cardiff var þegar búið að tryggja sér sigur í deildinni og sæti í ensku úrvalsdeildinni en Hull var að keppa við Watford um annað sætið. Fjögur næstu lið spila síðan um þriðja sætið í umspili.

Hull var 2-1 yfir á móti Cardiff og klúðraði þá víti sem hefði komið liðinu í 3-1 og tryggt endanlega sætið. Cardiff náði hinsvegar að jafna metin og því átti Watford enn möguleika á að taka annað sætið af Hull.

Leikur Watford og Leeds tafðist og því voru um tíu mínútur eftir þegar leik Hull lauk. Þá var staðan 1-1 og Watford þurfti eitt mark til að komast upp. Watford sendi alla í sókn og sú áhætta bar ekki árangur því Ross McCormack tryggði Leeds 2-1 sigur eftir skyndisókn.

Strákarnir hans Gianfranco Zola sátu því eftir með sárt ennið á meðan leikmenn Hull fögnuðu í leikmannagöngunum. Watford fer í umspilið ásamt Brighton, Crystal Palace og Leicester.

Steve Bruce er stjóri Hull City og er hann því aftur kominn upp í ensku úrvalsdeildina eftir að hafa verið rekinn frá Sunderland í nóvember 2011.

Cardiff og Hull urðu hinsvegar í tveimur efstu sætunum og fara beint upp.Hull City var síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2009-10. Cardiff er komið upp í fyrsta sinn síðan að úrvalsdeildina var sett á laggirnar. Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í dag en Heiðar Helguson er kominn heim.

Björn Bergmann Sigurðarson og félagar í Wolves urðu að sætta sig við fall niður í ensku C-deildina eftir 2-0 tap á móti Brighton. Peterborough, Wolves og Bristol City féllu úr ensku b-deildinni.

Liðin sem fara beint upp: Cardiff, Hull

Liðin sem fara í úrslitakeppnina um eitt laust sæti: Watford, Brighton, Crystal Palace, Leicester.

Liðin sem féllu: Peterborough, Wolves, Bristol City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×