Enski boltinn

Bruce: Tók á taugarnar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Steve Bruce fagnar af innlifun
Steve Bruce fagnar af innlifun Mynd/Nordic Photos/Getty
Steve Bruce knattspyrnustjóri Hull sem tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta segist hafa verið búinn á því, tilfinningalega, eftir að hafa fylgst með Leeds United hjálpa Hull á loka mínútum ensku B-deildarinnar.

Mikil meiðsli í leik Watford og Leeds urðu til þess að þeim leik lauk um það bil stundarfjórðungi eftir að Hull gerði 2-2 jafntefli við Cardiff í gær.

Þegar þeim leik lauk var staðan 1-1 í Watford og þurfti heimaliðið að skora til að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á kostnað Hull. Bruce fagnaði ógurlega þegar Ross McCormack tryggði Leeds sigur í uppbótartíma og tryggði Hull sæti í deild þeirra bestu á Englandi.

„Ég hef farið víða og þetta var ótrúleg skemmtun en þetta tók hrikalega á,“ sagði Bruce við Sky Sports eftir að leikjunum lauk.

„Við áttum þetta skilið. Dómarinn gaf Cardiff vítaspyrnu á ótrúlegan hátt en þetta var okkar dagur. Ég verð að hrósa Warford fyrir að veita okkur verðuga keppni.“

Hull var 2-1 yfir í uppbótartíma. Liðið klúðraði vítaspyrnu og horfði upp á Cardiff skora úr annarri og missti örlög sín þar með yfir í hendur Watford.

„Þetta tók á taugarnar. Við höfðum heyrt að Watford væri 2-0 yfir en svo var ekki. Við hefðum getað klárað þetta sjálfir. Ég veit ekki hvað við fengum mörg færi. Ég hef aldrei upplifað neitt eins og síðustu 10 til 15 mínúturnar.

„Svo að þurfa að bíða. Við sáum fólk ganga út um allt, fólk faldi sig inni á klósetti. Þetta var ótrúlegt. Og fyrir Leeds að skora, það er magnað og sýnir hve erfið þessi deild er.

„Ég hef aldrei haldið með Leeds en vá - fyrir Leeds United að gera þetta fyrir mig er magnað,“ sagði þessi fyrrum leikmaður Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×