Enski boltinn

Ferguson: Sé eftir Lampard

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson segist sjá eftir því að hafa ekki fengið enska miðvallarleikmann Chelsea, Frank Lampard, til liðs við Englandsmeistara Manchester United þegar Lampard var ungur.

„Lampard er stórkostlegur. Ótrúlegur. Ég held að það verði aldrei annar miðjumaður sem muni skora 200 mörk,“ sagði Ferguson um Lampard en Manchester United tekur á móti Chelsea í dag klukkan 15:00 í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.

„Hann er einstakur. Hann hefur átt frábæran feril verð ég að segja. Við skoðuðum hann þegar hann var ungur leikmaður hjá West Ham. Ég sé eftir því að hafa ekki keypt hann. Hvar annars staðar fengi ég 200 mörk?

„Hann býr yfir sömu gæðum og Bryan Robson hvað varðar tímasetningar, að mæta inn í teiginn á réttum tíma.

„Þetta snýst allt um tímasetningar hjá svona leikmönnum. John Wark hjá Ipswich var annar. Hann kunni að tímasetja hlaupin inn í teiginn.

„Þetta hefur skilað Lampard þessum 200 mörkum. Þar að auki man ég ekki til þess að Frank hafi nokkurn tíman verið meiddur. Ég hélt alltaf að hann spilaði ekki vegna þess að þeir héldu að hann væri búinn að missa það,“ sagði Ferguson að lokum um hið stutta tímabil þegar Lampard komst ekki í liðið hjá Chelsea fyrr á leiktíðinni.

Auk þess að geta séð leik Manchester United og Chelsea á Stöð 2 Sport 2 verður bein textalýsing frá leiknum á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×