Enski boltinn

Benitez: Getum unnið á Old Trafford

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Rafael Benitez knattspyrnustjóri Chelsea hefur fulla trú á því að lið  hans geti unnið stórleikinn gegn Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford klukkan 15 í dag.

Chelsea hefur ekki tapað í síðustu fimm leikjum og unnið fjóra þeirra en liðið á í harðri baráttu við Arsenal og Tottenham um tvö sæti í Meistaradeild Evrópu.

„Um leið og þú vinnur nokkra leiki í röð færðu meðbyr og sjálfstraust og þá verða hlutirnir auðveldari.

„Við gerum ekki marga hluti öðruvísi en áður en við vitum að við getum unnið hvaða lið sem er. Við sköpum færi og stjórnum leikjum,“ sagði Benitez sem trúir því að liðið geti haldið þessu góða gengi áfram á heimavelli Englandsmeistara Manchester United.

„Hér er alltaf erfitt að leika. Þetta er mjög gott lið. Það er engin pressa á þeim en við munum reyna að vinna fyrir framan stuðningsmenn þeirra. Þetta verður erfiður leikur, það er klár,“ sagði Benitez sem telur að sigrar á Manchester United og Tottenham muni tryggja liðinu Meistaradeildarsæti.

„Allir leikir eru mikilvægir fyrir okkur. Það verður erfitt að ná í þrjú stig í hverjum leik. Við erum svo nálægt þessu en við vitum að ef við náum í þessi þrjú stig og aftur gegn Tottenham þá höfnum við í einu af fjórum efstu sætunum,“ sagði Benitez að lokum.

Leikur Mancheseter United og Chelsea verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 15. Einnig verður bein textalýsing frá honum hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×