Fótbolti

Lét lífið á knattspyrnuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Shiels, stjóri Kilmarnock.
Kenny Shiels, stjóri Kilmarnock. Mynd/NordicPhotos/Getty
Stuðningsmaður Kilmarnock lést í dag eftir að hafa fengið hjartaáfall á leik Kilmarnock og Hibernian í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta. Maðurinn sem er á sextugsaldri hneig niður í miðjum leik og lést seinna á sjúkrahúsi. Leiknum var hætt í kjölfarið.

Það voru liðnar fimm mínútur af seinni hálfleiknum þegar maðurinn hneig niður. Sjúkraliðar á vellinum og læknalið frá báðum liðum kom honum til aðstoðar þar til að sjúkrabíll mætti á staðinn.

Hann var síðan fluttur á sjúkrahús í nágrenninu en ekki tókst að bjarga lífi hans. Báðir knattspyrnustjórar félaganna féllust á að leikurinn yrði flautaður af en staðan var 1-1 þegar atvikið kom upp.

Forráðamenn Kilmarnock hafa ekki gefið neitt um hver maðurinn sé nema að þessi stuðningsmaður hafi verið búinn að vera ársmiðahafi hjá Kilmarnock í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×