Fótbolti

Kona gæti breytt FIFA til hins betra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter. Nordicphotos/Getty
Með sæti ætluðu konu í framkvæmdastjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins er stórt skref stigið í átt til aukins jafnréttis kynjanna segir hin ástralska Moya Dodd. Hún vonast til þess að ná kjöri til framkvæmdastjórnar FIFA.

Lagt var til árið 2011 að eitt sæti í framkvæmdastjórn yrði eyrnamerkt konu. Nú stendur fyrir dyrum að sú fyrsta verði kjörin í kosningum síðar í mánuðinum. Reuters greinir frá.

„Það eru frábærar konur sem starfa í hreyfingunni. Heillandi, metnaðarfullar og hæfar konur sem gætu styrkt framkvæmdastjórnina,“ segir Dodd. Hún segir óvíst um framhaldið og hvort kona ætti möguleika á að ná kjöri í stjórnina væri sæti ekki eyrnamerkt konum.

„Ég veit ekki hvort við séum komin svo langt að konur geti barist um sæti sem eru ekki eyrnamerkt konum. Þetta er skref fram á við og ég fagna því,“ segir Dodd.

Sambandið hefur verið gagnrýnt töluvert fyrir kynjahyggju í gegnum tíðina. Líklega aldrei meir en þegar forseti FIFA, Sepp Blatter, lagði til árið 2004 að konur iðkuðu íþróttina í þrengri stuttbuxum. Þá sagði Alexandra Wrage af sér starfi í nefnd á vegum FIFA sem vinnur gegn spillingu. Ástæðuna sagði hún mikla fordóma sem hún hefði orðið fyrir þar sem hún væri kona. Ákvörðun FIFA að þagga málið niður í stað þess að leysa það varð til þess að hún gekk út.

Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×