Fótbolti

Notuðu piparúða á 14 ára fótboltastráka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Upp úr sauð í viðureign 14 ára liða Bursa Yolspor og Ikitellispor í Tyrklandi á dögunum.

Leikurinn var afar spennandi og var jafnt að loknum venjulegum leiktíma 1-1. Í framlenginunni komst Bursa snemma í 3-1 og við það misstu leikmenn gestaliðsins stjórn á sér.

Áreittu þeir dómarann ákaflega þar sem þeir töldu síðara markið ekki hafa átt að standa. Skipti engum toga heldur rak dómarinn tvo þeirra af velli sem kveikti enn frekar í öðrum leikmönnum liðsins.

Fór svo að þjálfarinn kom inn á völlinn og sló meðal annars einn leikmanna sinna utan undir af töluverðum krafti. Uppákoman fór á enn lægra plan þegar lögreglan mætti á svæðið.

Fór svo að lögreglan spreyjaði leikmenn gestaliðsins með piparúða og voru nokkrir þeirra fluttir á sjúkrahús.

Uppákoman á vellinum og á sjúkrahúsinu var tekin upp. Ástæða er til að vara við síðari hluta myndbandsins þar sem drengirnir eru grátandi á sjúkrahúsi í Tyrklandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×