Enski boltinn

Di Canio heldur áfram að fagna | Úrslit dagsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP
Sunderland vann góðan sigur á Everton og Stoke gerði stöðu QPR vonlausa með sigri á Loftus Road. Sjö leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Arsenal vann góðan 1-0 sigur á Fulham á Craven Cottage þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft. Leikurinn var í beinni lýsingu í Boltavakt Vísis en umfjöllun má lesa hér.

Úrslit og umfjöllun annarra leikja má sjá hér að neðan.

QPR 0-2 Stoke
Leikmannafundur í hálfleik á Loftus Road var ekki nóg hjá QPR.Nordicphotos/Getty
0-1 Peter Crouch (42.)

0-2 Jonathan Walters, víti (77.)

Leikmenn QPR geta byrjað að undirbúa sig fyrir lífið í Championship-deildinni á næsta tímabili. Lundúnarliðið tapaði 2-0 á heimavelli í botnslag gegn Stoke sem kom sér í góða stöðu í fallbaráttunni.

Peter Crouch skoraði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu af stuttu færi og gestirnir leiddu í hálfleik. Heimamenn voru andlausir og fengu á sig mark stundarfjórðungi fyrir leikslok. Þá skoraði Jonathan Walters úr vítaspyrnu eftir að Clint Hill braut á Crouch.

Stoke hefur 37 stig og er sex stigum frá Wigan sem vermir átjánda sæti deildarinnar. QPR hefur 24 stig líkt og Reading í botnsætunum tveimur.

West Brom 1-1 Newcastle
Gouffran fagnar marki sínu í dag.Nordicphotos/AFP
0-1 Yoan Gouffran (8.)

1-1 Billy Jones (64.)

Frakkinn Yoan Gouffran kom gestunum frá Newcastle yfir strax á áttundu mínútu. Newcastle hefur átt erfitt uppdráttar undanfarnar vikur en virðast vera að rétta úr kútnum.

Heimamenn jöfnuðu eftir tuttugu mínútna leik í síðari hálfleik. Þá skoraði Billy Jones en þetta var fyrsta mark sem Englendingur skorar fyrir liðið í vetur.

Niðurstaðan 1-1 jafntefli sem hentar báðum liðum ágætlega þó gestirnir hefðu vafalítið þegið stigin þrjú. West Brom hefur að litlu að keppa það sem eftir lifir móts en Newcastle þarf nokkur stig í viðbót til að tryggja sæti sitt í deildinni.

Sunderland 1-0 Everton
Nordicphotos/Getty
1-0 Stéphane Sessegnon (45+.)

Heimamenn í Sunderland halda áfram að standa sig undir styrkri stjórn Paolo Di Canio. Hart var barist í fyrri hálfleik og fyrsta markið lét bíða eftir sér þar til í viðbótartíma.

Everton menn töpuðu þá boltanum á eigin vallarhelmingi. Boltinn barst á Benínmanninn Stephane Sessegnon rétt utan vítateigs sem smellti boltanum neðst í fjærhornið. Tim Howard hafði hönd á bolta og var ósáttur við sjálfan sig.

Everton reyndi að jafna metin í síðari hálfleik en án árangurs. Fyrir vikið minnkaði veik von liðsins um sæti í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Grannarnir í Liverpool geta minnkað mun liðanna í þrjú sig með sigri á Chelsea á morgun.

West Ham 2-0 Wigan
Kevin Nolan horfir á eftir boltanum í markið. Markið var þó skráð á Matt Jarvis.Nordicphotos/Getty
1-0 Matt Jarvis (21.)

2-0 Kevin Nolan (80.)

Wigan sótti ekki gull í greipur West Ham á Boylen Ground. Á 21. mínútu sendi Matt Jarvis fyrir markið af vinstri kanti og boltinn lak framhjá öllum og í fjærhornið.

Kevin Nolan fagnaði reynar markinu eins og hann hefði snert boltann en Englendingurinn uppskar sjálfur mark tíu mínútum fyrir leikslok.

West Ham siglir lygnan sjó um miðja deild en Wigan er í átjánda sæti og missti af dýrmætum stigum í dag.

Norwich 2-1 Reading
Grant Holt sýnir takta á Carrow Road í dag.Nordicphotos/Getty
1-0 Ryan Bennett (50.)

2-0 Elliot Bennett (52.)

2-1 Garath McCleary (72.)

Norwich styrkti stöðu sína til muna í botnbaráttunni gegn lánlausu Reading liði. Nafnarnir Ryan Bennett og Elliot Bennett skoruðu keimlík mörk með tveggja mínútna millibili í upphafi síðari hálfleiks.

Garath McCleary minnkaði muninn fyrir gestina um miðjan síðari hálfleik en nær komust þeir ekki. Reading á enn fræðilegan möguleika á að bjarga sæti sínu í deildinni en möguleikinn er þó ekki raunhæfur.

Swansea 0-0 Southampton
Ada Llana taldi sig hafa skorað mark en aðstoðardómarinn veifaði flaggi sínu.Nordicphotos/Getty
Liðin tvö höfðu að litlu að keppa enda eru þau í hlutlausum gír um miðja deild. Bæði lið fengu færi til að skora og komst bjargaði Maya Yoshida á marklínu fyrir gestina um miðjan síðari hálfleikinn.

Markverðir liðanna Michel Vorm og Artur Boruc stóðu vaktina vel og bæði lið þokkalega sátt við uppskeru dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×