Enski boltinn

Nolan skoraði sitt 100. mark í gær

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Fyrirliði West Ham, Kevin Nolan, fagnaði þeim áfanga í gær að skora sitt 100. mark á ferlinum í 2-0 sigri gegn Wigan í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði mjög laglegt mark eftir undirbúning frá Andy Carroll.

„Að skora 100 mörk er vel af sér vikið fyrir hvaða leikmann sem er og ég er himinlifandi að vera kominn á þennan stað,“ segir Nolan við heimasíðu West Ham.

„Vonandi er ég ekki hættur – ég stefni nú á að skora mitt 101. mark í næsta leik. Þetta hefur kannski ekki mikil áhrif á mig næstu daga en ég mun alltaf getað litið tilbaka á þetta mark og notið þessa augnabliks.“

Nolan hefur verið iðinn við kolann í markaskorun hjá Bolton, Newcastle og West Ham í gegnum tíðina og er þessi þrítugi miðjumaður býsna drjúgur fyrir framan markið. Hann hrósar jafnframt Andy Carroll sem er á láni frá Liverpool hjá West Ham.

„Við höfum unnið saman í nokkrum mörkum. Þessi stóri drengur hefur verið frábær síðan hann kom aftur í liðið. Hann er góðu formi og við náum ótrúlega vel saman – utan sem innan vallar. Ég er himinlifandi með að hafa hann hérna og vonandi verður hann hér áfram,“ segir hundrað markamaðurinn Kevin Nolan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×