Enski boltinn

Lokaflautið ein besta stund lífs míns

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Nordicphotos/Getty
Paolo Di Canio, knattspyrnustjóri Sunderland, hefur unnið sér inn gríðarlegar vinsældir meðal stuðningsmanna Sunderland eftir frábært gengi í fyrstu leikjum liðsins undir hans stjórn. Sunderland hefur unnið síðustu tvo leiki í deildinni eftir að hann tók við stjórnartaumunum og er á góðri leið með að bjarga sér frá falli.

Di Canio hefur sýnt mikla ástríðu á hliðarlínunni. Hann faðmaði nánast hvern einasta leikmann Sunderland þegar þeir gengu til búningsherbergja eftir 1-0 sigur gegn Everton í gær.

„Lokaflautið í leiknum var ein af mínum bestu stundum í lífinu,“ sagði Di Canio. „Við stóðum okkur frábærlega. Á endanum þá munum við spila fallegri fótbolta en við sýndum gæði, ákveðni og staðfestu. Ég gæti ekki beðið um meira frá mínum mönnum á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér.“

Með sigrinum í gær er Sunderland nú í 14. sæti deildarinnar með 37 stig og er ofan en erkifjendurnir í Newcastle á markamun. Eftir tæpt tap gegn Chelsea á Stamford Bridge í fyrsta leiknum undir stjórn Di Canio hefur Sunderland nælt í sex stig, skorað fjögur mörk og ekki fengið neitt á sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×