Enski boltinn

Vonbrigði síðasta árs hvöttu okkur áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester United getur í kvöld tryggt sér sinn 20. Englandsmeistaratitil frá upphafi vinni liðið Aston Villa á Old Trafford.

Grannarnir í Manchester City unnu titilinn á hádramatískan hátt í fyrra eftir harða baráttu við United. Alex Ferguson, stjóri liðsins, segir að það hefði gefið mönnum aukakraft.

City vann titilinn með marki í uppbótartíma gegn QPR á lokadegi keppnistímabilsins. Aðeins markatalan skildi á milli Manchester-liðanna og vonbrigði United-manna sár.

„Þetta hvatti okkur áfram. Það verður að dást að þeirri einbeitingu sem við höfum sýnt á þessu tímabili. Við erum ólseigir og stöðugleikinn hefur verið góður,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla.

„Leikmenn gáfust aldrei upp. Það er staðreynd. Það einkennir sögu okkar meira en nokkuð annað. Leikmenn skilja út á hvað þetta gengur eftir að hafa verið hér í 2-3 ár. Það eru þessir eiginleika sem hafa komið okkur á þann stað sem við erum nú á.“

Ef United vinnur alla fimm leiki sína sem eftir eru á tímabilinu mun liðið bæta stigamet Chelsea sem fékk 95 stig árið 2005, þá undir stjórn Jose Mourinho.

„Við munum ekki slaka á. Þetta met er vel innan seilingar. Hversu oft í sögunni hefur Manchester United unnið fimm leiki í röð?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×