Enski boltinn

Ferguson: Furðuverkið Giggs spilar í tvö ár í viðbót

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er þess fullviss um að Ryan Giggs muni spila með Manchester United í tvö ár í viðbót - þar til að hann verður 41 árs.

Giggs vann í gær sinn þrettánda meistaratitil með United þegar að liðið vann 3-0 sigur á Aston Villa á Old Trafford.

„Hann er einstakt furðuverk,“ sagði Ferguson eftir leikinn í gær. „Hann mun spila í tvö ár í viðbót - treystið mér,“ bætti hann við en Giggs er þegar búinn að skrifa undir nýjan eins árs samning við félagið.

Giggs verður þriðji fertugi leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en hinir eru Teddy Sheringham og Gordon Strachan.

„Ég veit ekki hvað er hægt að segja meira um hann,“ sagði Carrick um Giggs. „Það er ótrúlegt að hann skuli enn vera að eftir allan þennan tíma. Þetta snýst ekki bara um líkamlega getu heldur að hafa áhugann og drifkraftinn til að leggja sig fram á hverjum einasta degi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×