Enski boltinn

Verður Jones betri en Charlton og Best?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Fergusuon, stjóri Manchester United, hefur trú á því að Phil Jones gæti orðið besti leikmaðurinn í sögu félagsins.

United varð í gær Englandsmeistari í 20. sinn frá upphafi og í þrettánda sinn undir stjórn Ferguson. Eftir leikinn hrósaði hann Jones sérstaklega.

„Miðað við hvernig hann lítur út í dag gæti Jones orðið besti leikmaður okkar frá upphafi. Hann er einn sá besti sem við höfum nokkru sinni haft en það virðist engu máli skipta hvar hann spilar.“

„Hann er aðeins 21 árs gamall og á eftir að verða stórkostlegur. Ég held að hann geti spilað í hvaða stöðu sem er á vellinum.“

Þetta eru stór orð hjá Ferguson, ekki síst miðað við þá leikmenn sem hafa spilað með United í gegnum tíðina. Meðal þeirra má nefna Bobby Charlton, Denis Law, George Best, Bryan Robson, Ryan Giggs, Paul Scholes og Cristiano Ronaldo.

„Hann hefur mikil áhrif á leikinn, býr yfir góðu innsæi og leikskilningi. Hann býr svo yfir sterkum innri drifkrafti.“

Ferguson hrósaði einnig öðrum ungum leikmönnum United, svo sem Rafael og David de Gea, og líst vel á framtíðina. „Við eigum kjarna af ungum leikmönnum sem eiga enn eftir að bæta sig. Það er ekki til of mikils mælst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×