Enski boltinn

City með augastað á Zlatan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester City gæti lagt fram boð í Zlatan Ibrahimovic ef félaginu mistekst að fá Edinson Cavani frá Napoli í sumar.

Þetta hefur breski vefmiðillinn Goal.com eftir sínum heimildum. Því er haldið fram að Txiki Begiristain, yfirmaður knattspyrnumála hjá City, hafi þegar rætt við Mino Raiola, umboðsmann Zlatan.

Raiola hefur þegar sagt opinberlega að líkur séu á því að Zlatan fari frá franska liðinu PSG nú í sumar. Hann hefur einnig verið orðaður við Juventus og AC Milan.

Zlatan hefur það þó gott í París og þykir ólíklegt að hann gangi frá þeim ofurlaunum sem hann hefur þar. Zlatan mun fá árlega um tvo milljarða króna í laun.

Roberto Mancini er stjóri City og hefur áður reynt að fá Zlatan til félagsins. Þeir störfuðu saman hjá Inter á sínum tíma. Begiristain er einnig mikill aðdáandi Zlatan og fékk hann til Barcelona árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×