Enski boltinn

Refsing Suarez of þung

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, segir að tíu leikja bann sé allt of þung refsing fyrir Luis Suarez.

Suarez beit um liðna helgi andstæðing í leik gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en dómari leiksins sá atvikið ekki. Hann var svo dæmdur í tíu leikja bann í vikunni af aganefnd enska knattspyrnusambandsins.

Undir eðlilegum kringumstæðum eru leikmenn dæmdir í þriggja leikja bann fyrir brot sem verðskulda rautt spjald en aganefndinni fannst ástæða til að lengja bannið um sjö leiki. Liverpool getur áfrýjað dómnum þar til á morgun.

„Það er fyrst og fremst lengd bannsins sem skaðar okkur. Þetta varð okkur gríðarlega mikil vonbrigði,“ sagði Rodgers við enska blaðamenn í dag.

„Við mótmælum því ekki að hann hafi verið dæmdur í leikbann því allir sáu hversu alvarlegt brot hans var. Luis gerir sér sjálfur grein fyrir því.“

Rodgers bendir á tvö samskonar atvik sem hafi komið upp í enska boltanum - bæði árin 2006.

„Í einu tilfellinu fékk leikmaðurinn ekkert bann og hélt sæti sínu í enska landsliðinu. Hinn leikmaðurinn fékk fimm leikja bann.“

„Við eigum því erfitt með að skilja að Luis hafi verið dæmdur í tíu leikja bann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×