Enski boltinn

Skil vel ef Suarez vill hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Suarez á æfingu hjá Liverpool í gær.
Suarez á æfingu hjá Liverpool í gær. Nordic Photos / Getty Images
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, segir að hann myndi hafa fullan skilning á því ef Luis Suarez myndi vilja yfirgefa enska boltann nú í sumar.

Suarez var í vikunni dæmdur í tíu leikja bann fyrir að bíta andstæðing í leik gegn Chelsea um síðustu helgi.

Hann telur refsinguna vera of þunga og íhugar nú hvort hann eigi að fara frá Liverpool og Englandi í sumar.

„Ég hef fylgst með honum á hverjum degi og hann leggur sig allan fram á hverri einustu æfingu. Ástríður hans eru fjölskyldan hans og Liverpool. Hann leggur allt sem hann á í þetta og það er ekki hægt að breyta því,“ sagði Rodgers.

„Ég hefði fullan skilning á því ef hann vildi hætta - 100 prósent. En ég trúi því af fullri einlægni að hann sé að reyna að aðlagast menningunni hér. En í hvert sinn sem hann tekur skref fram á við þá finnum við leið til að slá hann niður.“

Rodgers hefur rætt við umboðsmann Suarez daglega síðan að atvikið kom upp og hingað til ekki gert ráð fyrir öðru en að kappinn verði áfram. En hann segir að það þurfi að bíða í nokkra daga á meðan að öldurnar lægjast áður en hægt verði á ákveða framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×