Enski boltinn

Sjálfsmark kom Tottenham til bjargar | Þrjú rauð á St. Mary's

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tottenham gaf eftir í baráttunni um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni í dag en bjargaði þó jafntefli gegn Wigan.

Alls er fjórum leikjum nú nýlokið í deildinni en Everton vann góðan sigur á Fulham, 1-0, og er nú aðeins tveimur stigum á eftir Tottenham í fimmta sætinu.

Stoke hafði betur gegn Norwich, 1-0, og þá vann West Brom 3-0 útisigur á Southampton þar sem þrjú rauð spjöld fóru á loft.

Wigan - Tottenham 2-2

0-1 Gareth Bale (9.)

1-1 Emmerson Boyce (11.)

2-1 Callum McManaman (49.)

2-2 Emmerson Boyce, sjálfsmark (89.).

Wigan hefði komist upp úr fallsæti með sigri á Tottenham í dag en liðið er nú tveimur stigum frá öruggu sæti.

Það byrjaði þó ekki vel fyrir Wigan því liðið gaf hreinlega Tottenham 1-0 forystu. Maynor Figueroa gaf boltann aftur á markvörðinn Joel Robles sem reyndi að hreinsa frá marki. Hann sparkaði þó beint í Gareth Bale en af honum fór boltinn í markið.

Emmerson Boyce var þó aðeins tvær mínútur að jafna metin fyrir Wigan þegar hann skoraði með skalla á elleftu mínútu og Callum McManaman kom liðinu yfir með fallegu skoti í upphafi síðari hálfleiks.

Allt leit út fyrir að Wigan myndi vinna góðan sigur þegar að sjálfsmarkið kom. Aaron Lennon á sendingu fyrir markið og varð Boyce fyrir því óláni að senda knöttinn í eigið net úr þvögunni.

Tottenham fékk svo tækifæri til að skora í uppbótartíma en allt kom fyrir ekki. Gylfi Þór Sigurðsson var allan leikinn á varamannabekk Tottenham.

Everton - Fulham 1-0

1-0 Steven Pienaar (16.)

Steven Pienaar skoraði sigurmark Everton gegn Fulham í dag en það gerði hann eftir fyrirgjöf Seamus Coleman. Fulham hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.

Aðeins fjögur stig skilja að liðin í 3.-6. sæti en fjögur efstu liðin komast í Meistaradeildina.

Southampton - West Brom 0-3

0-1 Marc-Antoione Fortune (6.)

0-2 Romelu Lukaku (67.)

0-3 Shane Long (77.)

West Brom vann sinn fyrsta sigur síðan í byrjun síðasta mánaðar er liðið gerði góða ferð á St. Mary's-leikvanginn í Southampton. Þrjú rauð spjöld fóru á loft.

Gaston Ramirez kom inn á sem varamaður og fékk að líta rautt í stöðunni 2-0. Stuttu síðar fór Fortune sömu leið. Danny Fox, leikmaður Southampton, fékk svo rautt fyrir tveggja fóta tæklingu á Steven Reid undir lok leiksins.

Stoke - Norwich 1-0

1-0 Charlie Adam (46.)

Charlie Adam tryggði Stoke 1-0 sigur á Norwich og er nú með 40 stig. Norwich er í fjórtánda sæti með 38 stig - sex stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×