Enski boltinn

Van Persie skoraði á gamla heimavellinum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester United og Arsenal gerði 1-1 jafntefli á Emirates-vellinum í London í dag en Manchester United hafði tryggt sér Englandsmeistaratitilinn í byrjun vikunnar.

Fyrsta mark leiksins kom eftir tæplega tveggja mínútna leik þegar Theo Walcott skoraði fínt mark eftir stungusendingu frá Tomás Rosický. Gestirnir náðu að jafna metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins þegar Bacary Sagna braut á Robin van Persie innan vítateigs.

Persie fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi á sínum gamla heimavelli. Framherjinn fagnaði ekki markinu, enda fyrrum leikmaður Arsenal. Síðari hálfleikurinn var ekki jafn fjörugur og sá fyrri og hvorugt liðið náði að setja mark sitt á leikinn.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og því getur Manchester United ekki náð stigametinu af Chelsea á þessu tímabili. Liðið nær ekki að fara yfir 95 stiga múrinn en þeir hafa 85 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Arsenal er í fjórða sætinu með 64 stig, tveimur stigum á undan Tottenham sem er í því fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×