Enski boltinn

Varnarleikinn verður að bæta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rafa Benitez, stjóri Chelsea, segir að hans menn verði að bæta varnarleik sinn fyrir undanúrslitaleikinn í enska bikarnum gegn Manchester City á sunnudaginn.

Chelsea tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gær þrátt fyrir 3-2 tap í síðari viðureign liðsins gegn Rubin Kazan í Rússlandi í gær. Chelsea bjó að 3-1 sigri í fyrri leiknum og fór því áfram samanlagt 5-4.

Tvö marka Rubin Kazan komu með skalla eftir fyrirgjöf og Benitez hefur áhyggjur af vörninni.

„Við verðum að stöðva fyrirgjafir og bregðast mun betur við þeim. Þetta voru hlutir sem við réðum ekki við gegn Rubin," sagði Benitez.

Mark Fernando Torress eftir fjórar mínútur setti Chelsea í þægilega stöðu. Í síðari hálfleik voru þau augljósar brotalamir á leik liðsins þar sem liðið fékk á sig þrjú mörk. Var eflaust farið að fara um einhverja stuðningsmenn Chelsea eftir að Rubin komst í 3-2 og nægur tími til stefnu fyrir tvö mörk til viðbótar.

„Ég er vonsvikinn því varnarleikurinn í seinni hálfleiknum var ekki nógu góður. Það eru ekki bara varnarmennirnir sem þurfa að bæta sig því þetta snýst um varnarleik liðsins í heild," sagði Benitez. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að hann ætlar að setjast yfir upptökur af leiknum og rannsaka málið.

Chelsea mætir Man. City á Wembley í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudag. Benitez gat hvílt Juan Mata og Eden Hazard í leiknum í gær. Hins vegar vakti rifrildi Frank Lampard og David Luiz undir lok fyrri hálfleiks athygli.

„Það er alltaf gott þegar leikmenn rífast um atvik sem gerast inni á vellinum. Þá er hægt að fara yfir málið í leikhléinu," sagði Benitez.

Mörkin úr leiknum í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×