Enski boltinn

David Luiz fyrirgefur Aguero rassatæklinguna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Luiz hjá Chelsea hefur fyrirgefið Sergio Aguero hjá Manchester City fyrir það hann kallar „fimm sekúndur af reiði" en argentínski framherjinn komst upp með það að traðka á rassi Brasilíumannsins í í undanúrslitaleik enska bikarsins á Wembley í gær.

Atvikið gerðist undir lok leiksins eftir að þeir félagar fóru í tæklingu. Chris Foy, dómari leiksins, missti af því þegar Aguero lét báða sóla vaða í afturendann á David Luiz. Það er hægt að sjá myndband af atvikinu með því að smella hér fyrir ofan.

„Ég sá ekki alveg hvað gerðist því ég lá á bakinu en margir hafa nefnt þetta við mig," sagði David Luiz og bætti við:

„Ég fann samt aðeins fyrir þessu. Stundum missa menn sig í fimm sekúndur þegar þeir reiðast og gera sig þá seka um hluti sem þeir ætluðu aldrei að gera. Ég held að þetta hafi verið þannig," sagði David Luiz.

„Aguero er frábær leikmaður en hann verður að koma hreint fram og segja að hann sé ekki hrifinn af ljótum tæklingum. Þetta voru samt bara fimm sekúndur af reiði og ég fyrirgef honum," sagði David Luiz.

Það má einnig sjá myndband af mörkunum úr leiknum með því að smella hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×