Enski boltinn

Wenger tók áhættu með Wilshere

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere.
Jack Wilshere. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, lét Jack Wilshere spila á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um síðustu helgi þrátt fyrir að miðjumaðurinn hefði helst þurft lengri tíma til að jafna sig af meiðslunum sem voru búin að halda honum frá keppni síðan 3. mars.

„Ég lét Jack spila leikinn þrátt fyrir að hann væri ekki fullkomlega heill," viðurkenndi Arsene Wenger á blaðamannafundi fyrir leik á móti Everton í kvöld. Jack Wilshere meiddist á ökkla í leik á móti Tottenham.

„Hversu varlega þarf ég að fara með hann? Ég þarf að hlusta vel á læknaliðið og hlera það jafnframt hvernig honum sjálfum líður. Ég nota líka reynslu mína," sagði Wenger en Jack Wilshere missti af öllu 2011-12 tímabilinu vegna langvinna ökklameiðsla.

„Jack var búinn að vera frá í sex vikur og kannski var ég of fljótur á mér að taka hann strax inn í liðið. Hann hefur hinsvegar æft hjá mér síðan að hann var sextán ára þannig að ég þekki það orðið vel hvernig skrokkurinn hans bregst við," sagði Wenger en Jack Wilshere spilaði fyrst 59 mínúturnar á móti Norwich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×