Enski boltinn

Aron Einar í viðtali á Sky Sports

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aron Einar Gunnarsson er í viðtali á Sky Sports í dag en hann og félagar hans í Cardiff City tryggðu sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð með því að gera jafntefli við Charlton í ensku b-deildinni í gærkvöldi.

Cardiff City er búið að tryggja sér sætið í úrvalsdeildinni en á enn eftir að landa deildarmeistaratitlinum. Cardiff er með sjö stiga forskot á Hull þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Félagið á skilið að komast upp í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er frábær klúbbur og við getum ekki beðið eftir að spila í úrvalsdeildinni," sagði Aron Einar við Sky Sports.

„Tímabilið er samt ekki búið. Við eigum enn þrjá leiki eftir og við ætlum að vinna deildina. Við ætlum ekkert að hætta núna þótt að við séum komnir upp," sagði Aron Einar.

„Það var frábært að fá að taka þátt í því að koma Cardiff upp. Ég er mjög stoltur af þessum árangri. Þetta er mikið afrek og það eru allir mjög ánægðir. Ég er heppinn að fá að vera með í þessu," sagði Aron Einar.

„Stuðningsmennirnir nutu þessarar stóru stundar í sögu félagsins og það var gaman að fagna þessu með þeim. Það er erfitt að lýsa þessu í orðum," sagði Aron Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×