Enski boltinn

Ég er heppinn að vera á lífi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stiliyan Petrov
Stiliyan Petrov Mynd/AFP
Stiliyan Petrov, fyrirliði Aston Villa, er með hvítblæði og hefur ekkert spilað með liðinu síðan að hann greindist fyrir rúmu ári síðan. Búlgarinn segist vera heppinn að vera á lífi.

„Ég fór í gegnum erfiðar stundir en það hafa verið líka góðar stundir inn á milli. Ég er heppinn að vera á lífi af því að sumt fólk sem fær þessi veikindi deyr fljótt," sagði Stiliyan Petrov við Sky Sports.

Petrov greindist með hvítblæði í mars 2012 en veikindin eru nú í rénun eftir eins árs lyfjameðferð.

„Ég er ánægður með að þetta erfiða ár er að baki og nú get ég farið að einbeita mér að komast aftur af stað með mitt líf," sagði Petrov sem ætlar að einbeita sér að eyða tíma með fjölskyldunni.

Stiliyan Petrov kom til Aston Villa árið 2006 en hafði áður spilað í sjö ár hjá skoska liðinu Celtic.

„Ég hélt fyrst að ég væri bara með kvef og að þetta væri ekkert alvarlegt. Það var svolítið sjokk að fá fréttirnar en ég vild byrja meðferðina eins fljótt og hægt var," sagði Petrov.

„Stuðningurinn frá stuðningsfólkinu, félaginu og leikmönnunum hefur verið magnaður," sagði Stiliyan Petrov en stuðningsmenn Aston Villa klappa fyrir Petrov á 19. mínútu í öllum leikjum liðsins. Búlgarinn spilaði númer nítján og hann kann vel að meta þessa jákvæðu strauma frá Villa-mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×