Enski boltinn

Chelsea vann United í bikarnum og mætir City í undanúrslitum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Chelsea lagði Manchester United í 8-liða úrslitum enska bikarsins, 1-0, á Stamford Bridge en þetta var annar leikur liðanna í keppninni.

Fyrri leikurinn fór 2-2 á Old Trafford og því þurfti annan leik til að skera úr um sigurvegara.

Leikurinn hófst heldur rólega og var staðan 0-0 í hálfleik. Strax í upphafi síðari hálfleiksins náðu heimamenn að skora eina mark leiksins en þar var að verki framherjinn Demba Ba.

Hann fékk frábæra stungusendingu inn í vítateig Manchester United frá samherja sínum Juan Mata og skaut boltanum viðstöðulaust í netið, alveg óverjandi fyrir David de Gea í marki Manchester United.

Gestirnir í United reyndu hvað þeir gátu að jafna metin í síðari hálfleikinn en allt kom fyrir ekki og því mun Chelsea mæta Manchester City í undanúrslitum keppninnar.



Chelsea 0-0 Manchester United, 8 liða úrslit enska bikarsins:

Leik lokið:
Chelsea vinnur hér frábæran sigur 1-0 og er komið í undanúrslit keppninnar. Chelsea mætir þar Manchester City.

88. mínúta -
Robin van Persie í algjöru dauðafæri en skot hans hátt yfir. Frábær sending frá Ashley Young inn í teig Chelsea en illa farið með gott færi.

82. mínúta-
Ekki mikið að gerast í leiknum þessa stundina. Leikmenn Manchester United reyna hvað þeir geta að jafna metin en ná ekki að skapa sér færi.

68. mínúta -
Eden Hazard, leikmaður Chelsea, sleppur hér einn í gegn en skot hans rétt framhjá. United-menn virkilega heppnir að vera ekki 2-0 undir.

61. mínúta -
Javier Hernández átti hér frábæran skalla á mark Chelsea en Petr Cech náði á einhvern ótrúlegan hátt að verja boltann yfir markið. Robin van Persie er nýkominn inná í liði United og spurning hvort hann hressi uppá sóknarleikinn.

49. mínúta -
Frábært mark frá heimamönnum en Juan Mata átti magnaða sendingu inn fyrir vítateig Manchester United og Demba Ba stýrði boltanum viðstöðulaust í netið, alveg óverjandi fyrir David de Gea í marki United.

Hálfleikur, 0-0 - Fyrri hálfleikurinn hefur ekki verið nein fótboltveisla enda virka bæði liðin þreytuleg. Það lifnaði þó aðeins yfir leiknum á síðustu tíu mínútum seinni hálfleiks en nú er bara að vona að stjórunum takist að kveikja í sínum mönnum í hálfleik og að við fáum skemmtilegri seinni hálfleik.

43. mínúta - Nani er við það að sleppa í færi í teignum en fellur eftir viðskipti við Ryan Bertrand. Phil Dowd dæmir ekkert enda var þetta ekki mikil snerting.

41. mínúta - Javier Hernández reynir að því virðist hættulítið skot af löngu færi en það er skrýtinn snúningur á skotinu. Petr Cech lendir í vandræðum í marki Chelsea en nær að bjarga með fótunum.

39. mínúta - Nú er aðeins að lifna yfir leiknum enda kominn tími til. Eden Hazard er strax kominn í færi hinum megin en skot hans er yfir.

38. mínúta - Nani nær góðu skoti af löngu færi sem fer rétt framhjá stönginni. Nani hefur verið meira áberandi síðustu mínútur.

33. mínúta - Demba Ba kemst aftur í fær en að þessu sinni komst Chris Smalling fyrir skotið. Góður kafli hjá Chelsea-mönnum sem voru hálfsofandi mínúturnar á undan.

31. mínúta - Demba Ba nær fyrsta alvöru skotinu eftir hraða sókn og sendingu frá Eden Hazard en David De Gea varði vel í horn. Ekkert verður úr horninu.

27. mínúta - Manchester United er komið með ágæt tök á leiknum en fyrsta alvöru færi leiksins lætur enn bíða eftir sér. Javier Hernández var kominn inn í teig með boltann en rann áður en hann náði skotinu.

22. mínúta - Manchester United nær lofandi skyndisókn en Nani er alltof seinn að spila boltanum á galopinn Javier Hernandez og varnarmenn Chelsea komast fyrir sendinguna. Ashley Cole, bakvörður Chelsea, er tognaður aftan í læri og verður að yfirgefa völlinn. Ryan Bertrand kemur inn fyrir hann.

16. mínúta - Leikurinn er í jafnvægi og það er lítið um færi. Manchester United er þó komið inn í leikinn og farið að halda boltanum betur en í upphafi leiksins. Það er ekki einu sinni komið horn í leiknum.

8. mínúta - Það er púað kröftuglega í hvert skipti sem Rio Ferdinand fær boltann en stuðningsmenn gestanna hafa svarað þessu með því að púa á Ashley Cole, leikmann Chelsea.

4. mínúta - Chelsea byrjar leikinn mun betur og gestirnir frá Manchester United eru í smá vandræðum á upphafsmínútunum. Phil Jones er inn á miðjunni en Antonio Valencia er í stöðu hægri bakvarðar.

1. mínúta - Leikurinn er hafinn. Stjórarnir Sir Alex Ferguson og Rafael Benitez heilsuðust fyrir leikinn en það þykir fréttnæmt.

Byrjunarlið Chelsea: Petr Cech, César Azpilicueta, Branislav Ivanovic, David Luiz, Ashley Cole, John Obi Mikel, Ramires, Eden Hazard, Juan Manuel Mata, Oscar, Demba Ba. Varamenn: Turnbull, Lampard, Torres, Moses, Terry, Benayoun, Bertrand.

Byrjunarlið Man Utd: David De Gea, Phil Jones, Chris Smalling, Rio Ferdinand, Patrice Evra, Antonio Valencia, Michael Carrick, Tom Cleverley, Nani, Javier Hernandez, Danny Welbeck. Varamenn: Lindegaard, Giggs, Young, van Persie, Powell, Kagawa, Vermijl.

Dómarinn: Phil Dowd.

Fyrir leik: Opta Joe greinir frá því á twitter að ef vítaspyrnukeppnir eru ekki taldar með þá hefur Chelsea ekki tapað bikarleik á Stamford Bridge síðan í mars 2003. Þetta eru orðnir 24 leikir í röð án taps (20 sigrar og 4 jafntefli).

Fyrir leik: Chelsea og Manchester United hafa mæst þrisvar sinnum í vetur, í deild, bikar og deildarbikar. United vann deildarleikinn 3-2, Chelsea vann deildarbikarleikinn 5-4 en liðin gerðu síðan 2-2 jafntefli í bikarnum. Markatalan í þessum þremur leikjum er 9-9 og það hafa verið skoruð 6 mörk að meðaltali í þeim.

Fyrir leik: Javier Hernandez, Chicharito, er búinn að skora fyrir Manchester United í öllum þremur leikjum liðanna í vetur þar á meðal sigurmarkið í 3-2 sigri á Stamford Bridge í deildinni. Ramires hefur líka skorað fyrir Chelsea í öllum þessum leikjum þar á meðal jöfnunarmarkið í bikarleiknum á Old Trafford. Javier Hernandez hefur skorað í sex af síðustu sjö leikjum Manchester United á móti Chelsea.

Fyrir leik: Wayne Rooney er lítillega meiddur aftan í læri og verður þess vegna ekki með í dag. Sir Alex Ferguson segir að Rooney verði orðinn klár fyrir Manchester-slaginn á mánudaginn kemur.

Fyrir leik: Rio Ferdinand kemur aftur inn í byrjunarlið Manchester United en Wayne Rooney er ekki einu sinni í leikmannahópnum. Javier Hernandez og Danny Welbeck byrja saman í framlínunni.

Fyrir leik: Eden Hazard, Juan Mata og Oscar eru allir í byrjunarliðinu og spila fyrir aftan Demba Ba. Frank Lampard, Fernando Torres og John Terry eru allir á varamannabekknum í dag.

Fyrir leik: Javier Hernández og Wayne Rooney komu Manchester United í 2-0 á fyrstu 11 mínútunum á Old Trafford en Edin Hazard og Ramires skoruðu báðir í seinni hálfleiknum og tryggðu Chelsea annan leik.

Fyrir leik: Bæði liðin voru að spila í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn en United fékk aðeins meiri hvíld. Manchester United vann þa´1-0 sigur á Sunderland en Chelsea tapaði 1-2 fyrir Southampton.

Fyrir leik: Chelsea-menn eru ríkjandi bikarmeistarar og Chelsea hefur unnið enska bikarinn fjórum sinnum síðan að Manchester United vann hann síðast árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×