Enski boltinn

Paul Ince segir strákinn sinn 4,6 milljarða virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Ince.
Thomas Ince. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paul Ince, fyrrum leikmaður Manchester United, Internazionale og Liverpool, er pabbi eins eftirsóttasta unga leikmannsins í enska fótboltanum og hann segir að strákurinn sinn eigi ekki að vera seldur fyrir einhverja smáaura.

Thomas Ince er 21 árs kantmaður eða sóknartengiliður sem hefur spilað með Blackpool frá árinu 2001. Hann hefur skorað 19 mörk í 33 leikjum í ensku b-deildinni á þessu tímabili og skoraði tvö mörk í 4-0 sigri 21 árs landsliðsins á Svíum í febrúar.

„Ef lið er að borga 15 milljónir punda fyrir Wilfried Zaha þá hlýtur Thomas að vera 25 milljón punda virði. Ef við berum þessa tvo leikmenn saman þá ætti Thomas að kosta meira," sagði Paul Ince í útvarpsviðtali á BBC. Manchester United keypti Wilfried Zaha frá Crystal Palace á dögunum en Zaha byrjar ekki að spila með United fyrr en á næsta tímabili.

Paul Ince var seldur fyrir samtals 17 milljónir punda á ferlinum sínum sem spannaði frá 1986 til 2007 en Internazionale borgaði Manchester United meðal annars 7,5 milljónir punda fyrir Paul Ince sumarið 1995.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×