Enski boltinn

Spennan eykst í fallbaráttunni | Arsenal í fjórða sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Öllum leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni er lokið. Arsenal og Aston Villa unnu góða útisigra en Norwich gerði 2-2 jafntefli við Swansea.

Arsenal hoppaði upp í fjórða sæti deildarinnar með 2-1 sigri á West Brom. Tomas Rosicky skoraði bæði mörk Arsenal í leiknum en West Brom minnkaði muninn með vítaspyrnu eftir að Per Mertesacker braut klaufalega á Shane Long.

Mertesacker fékk að líta rauða spjaldið að launum en James Morrison skoraði úr vítinu. West Brom náði ekki að færa sér liðsmuninn í nyt á síðustu 20 mínútunum og fagnaði Arsenal því sigri.

Arsenal hefur unnið sex af sjö síðustu leikjum sínum og komst upp fyrir Chelsea með sigrinum í dag. Chelsea á þó leik til góða.

Aston Villa tryggði sér mikilvæg stig í fallbaráttunni með 3-1 sigri á Stoke. Liðið komst með sigrum úr fallsæti og er nú í 16. sæti með 33 stig. Stoke er í fjórtánda sæti með 34 stig en aðeins fjögur stig skilja að liðin í 14.-18. sæti.

Gabriel Agbonlahor kom Aston Villa yfir en Michael Kightly jafnaði metin fyrir Stoke tíu mínútum fyrir leikslok. Villa reyndist sterkari á lokamínútunum. Matthew Lowton skoraði með frábæru skoti á 87. mínútu og Christian Benteke innisglaði sigurinn stuttu síðar.

Norwich er heldur ekki langt frá fallsvæðinu en liðið er með 35 stig í 15. sæti deildarinnar. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Swansea sem hefur unnið aðeins einn deildarleik síðustu tvo mánuðina eða svo. Swansea er þó enn í efri hluta deildarinnar.

Michu kom Swansea yfir en Robert Snodgrass jafnaði áður en Michael Turner kom heimamönnum yfir snemma í síðari hálfleik. Luke Moore bjargaði þó jafnteflinu fyrir Swansae með marki á 75. mínútu.

Michu fékk reyndar frábært færi á lokamínútum leiksins en hitti ekki markið af stuttu færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×