Enski boltinn

Stórsókn Liverpool bar engan árangur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool og West Ham gerðu markalaust jafntefli á Anfield þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í dag. Stórsókn Liverpool í seinni hálfleik bar engan árangur og liðið tókst ekki að skora á heimavelli í fjórða sinn á tímabilinu.

West Ham liðið er með lélegasta útivallarárangurinn í deildinni fyrir utan Reading en varðist vel í dag og náði í flott stig.

Philippe Coutinho og Luis Suárez sköpuðu sér báðir færri í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að skora þrátt fyrir lagleg tilþrif. West Ham ógnaði Liverpool aðeins í fyrri hálfleiknum en eftir hlé var bara eitt lið á vellinum.

Daniel Sturridge skoraði reyndar á 66. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Fjórum mínútum síðar vildi Steven Gerrard fá víti en ekkert var dæmt og fyrirliðinn fékk einnig frábært skotfæri í teignum sem varnarmenn West Ham komust fyrir.

West Ham var samt nálægt því að stela sigrinum í lokin þegar Pepe Reina varði vel skalla frá Jack Collison. Liverpool náði nokkrum góðum sóknum eftir það en sigurmarkið kom ekki og liðið tapaði tveimur mikilvægum stigum á heimavelli í baráttunni um Evrópusæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×