Enski boltinn

Sir Alex: Chelsea-menn verða erfiðir ef Jose kemur aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, leggur áherslu að United sé ekkert að fara að gefa eftir á næstu árum og verði áfram í titilbaráttunni á næsta tímabili. Ferguson hefur áhyggjur af Chelsea fari svo að Jose Mourinho mæti aftur á Stamford Bridge.

Manchester United er svo gott sem búið að tryggja sér tuttugasta Englandsmeistaratitilinn enda með fimmtán stiga forskot á nágranna sína í Manchester City. Liðin mætast á morgun og þá getur United náð átján stiga forystu.

„Við erum með ungt lið og árangur okkar síðustu tuttugu ár segir að við erum ekki að fara að gefa eftir. Við höfum líka leikmenn sem eru að þroskast mikið, leikmenn eins og Rafa [da Silva], David de Gea markvörður og [Shinji] Kagawa sem verður miklu betri á næsta tímabili," sagði Sir Alex Ferguson við Sky Sports.

„Það eru nokkrir leikmenn okkar að verða gamlir en við eigum samt að vera í góðum málum í flestum leikstöðum. Það er síðan önnur saga hvort við getum unnið þrjá titla í röð í svona erfiðri deild en mannskapurinn er til staðar til þess," sagði Ferguson.

„Ef Jose fer aftur til Chelsea þá verða þeir mjög erfiðir og Manchester City er ekkert á förum með þá peninga sem þeir hafa yfir að ráða. Ég held líka að Arsenal verði betra lið á næsta tímabili og þá hefur Tottenham verið á uppleið undanfari ár," sagði Ferguson.

„Það er erfitt að vinna þessa deild en núna þurfum við bara að einbeita okkur að því að vinna deildina í ár," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×