Enski boltinn

Ferguson: Chicharito fer ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez.
Javier Hernandez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar ekki að missa Javier Hernandez en framherjinn skemmtilegi frá Mexíkó hefur verið orðaður við önnur lið í enskum miðlum að undanförnu enda ekki fastamaður í liði United.

Chicharito hefur aðeins byrjað sex leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en er með 8 mörk í 15 leikjum og er að skora á 86 mínútna fresti. Hann hefur skorað 4 mörk í 5 bikarleikjum þar sem hann hefur alltaf verið í byrjunarliðinu.

„Hann er með langan samning við okkur og við kippum okkur upp við áhuga annarra liða. Hann er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur og er öðruvísi en hinir framherjarnir okkar. Hann breytir alltaf leikjum þegar hann kemur inn á völlinn," sagði Sir Alex Ferguson við Daily Mail.

„Það er ekki auðvelt fyrir mig að halda honum utan liðsins. Hann hefur skorað 16 mörk og ef við tökum mið af því hversu marga leiki hann hefur spilað þá er það frábær tölfræði. Það bendir samt ekkert til þess að hann sé pirraður," sagði Ferguson.

Manchester United mætir Chelsea á Stamford Bridge klukkan 11.30 í dag í átta liða úrslitum enska bikarsins og þá er að sjá hvort Javier Hernandez haldi áfram að byrja bikarleiki liðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×