Fótbolti

Frægðarför til Ungverjalands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslenska liðið sem lagði Spán í undankeppni EM 1992 tæpu ári áður. Frá vinstri: Sigurður Jónsson, Guðni Bergsson, Sigurður Grétarsson, Ásgeir Elíasson þjálfari, Hörður Magnússon, Hlynur Stefánsson, Lárus Loftsson og Andri Marteinsson.
Íslenska liðið sem lagði Spán í undankeppni EM 1992 tæpu ári áður. Frá vinstri: Sigurður Jónsson, Guðni Bergsson, Sigurður Grétarsson, Ásgeir Elíasson þjálfari, Hörður Magnússon, Hlynur Stefánsson, Lárus Loftsson og Andri Marteinsson.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Slóveníu í undankeppni HM 2014 í Ljubljana á föstudaginn. Íslendingar hafa ekki oft sótt gull í greipar þjóða í Austur-Evrópu.

Það voru fáir sem reiknuðu með sigri íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu er liðið sótti Ungverja heim 3. júní 1992 í 5. riðli í undankeppni HM 1994. Íslenska liðið var í riðli með Rússum, Grikkjum, Ungverjum og Lúxemborg. Liðið hafði tapað 1-0 gegn Grikkjum í fyrsta leiknum í riðlinum og Ungverjar voru í þriðja styrkleikaflokki en Ísland í þeim fimmta.

Þetta var fyrsta heila undankeppnin sem íslenska liðið lék í undir stjórn Ásgeirs heitins Elíassonar. Ungverjar blésu til stórsóknar og komust yfir snemma leiks. Þegar gengið var til búningsherbergja var fátt sem benti til annars en að íslenska liðið yrði stigalaust að loknum fyrstu tveimur leikjum sínum.



Eftir sex mínútna leik í síðari hálfleik hafði Ísland jafnað metin. Sigurður fyrirliði Grétarsson, þáverandi leikmaður Grasshopper í Sviss, sendi þá frábæra sendingu inn á Þorvald Örlygsson, þáverandi leikmann Nottingham Forest.

Rangstöðugildra Ungverja brást algjörlega og Þorvaldur vippaði boltanum snyrtilega í markið og mátti heyra saumnál detta á leikvanginum í Búdapest. Heimamenn, stórþjóð í knattspyrnu á árum áður, trúðu varla sínum eigin augum en ballið var rétt að byrja.

Á 64. mínútu fór Sigurður af velli fyrir Hörð Magnússon framherja FH og níu mínútum síðar lá boltinn í netinu. Eftir hörkutæklingu Arnars Grétarssonar á miðjunni barst boltinn á Baldur Bjarnason. Baldur sendi boltann út á hægri vænginn þangað sem Andri Marteinson var mættur.

Andri sendi boltann fyrir markið þar sem Rúnar Kristinsson skallaði af krafti. Markvörður Ungverja varði með tilþrifum en Hörður hirti frákastið og þrumaði boltanum í netið. Ótrúleg staða enda fátt sem benti til annars en taps fram að jöfnunarmarkinu.

Ungverjar gerðu harða atlögu að marki Birkis Kristinssonar það sem eftir lifði leiks en án árangurs. Einn glæsilegasti sigur Íslands á erlendri grundu í höfn.

Íslenska liðið vann einnig sigur á Ungverjum í síðari leik þjóðanna á Laugardalsvelli. Liðið hafnaði í þriðja sæti riðilsins eftir þrjá sigra, tvö jafntefli og þrjú töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×