Fótbolti

Gascoigne: Ég hef bara farið á fimm fyllerí á ellefu árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Gascoigne.
Paul Gascoigne. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paul Gascoigne, fyrrum leikmaður Tottenham og enska landsliðsins, hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu og var í bráðri lífshættu í upphafi ársins eftir ofneyslu áfengis og annarra lyfja. Hann talaði um reynslu sína við Sky Sports.

„Mér líður miklu betur núna enda eru liðnar sex vikur. Ég hef aðeins drukkið í samtals fjóra mánuði á síðustu ellefu árum. Þetta hafa bara verið fimm fyllirí og ég þarf að hætta að fara á þessi fyllirí," sagði Paul Gascoigne sem endaði á spítala eftir síðasta fylleríið. Þetta eru vissulega engin venjuleg fyllerí enda taka þau margar vikur.

„Ég þarf bara að hætta að drekka. Ég sá sjálfan mig í nýju ljósi þegar ég las það sem blöðin skrifuðu um mig á dögunum. Vonandi get ég í það minnsta verið víti til varnaðar fyrir aðra alkahólista því ég var svo nálægt því að syngja mitt síðasta. Vonandi hjálpar mín saga öðrum að passa sig," sagði Paul Gascoigne.

„Ég veit ekki hvort að mér takist að hætta að drekka. Ég sleppi því allavega að drekka í dag," sagði Gascoigne sem varð hræddur á sjúkrahúsinu.

„Ég mun aldrei gleyma því þegar ég lá í sjúkrarúminu og heyrði lækninn tala um að þessi mun líklega ekki lifa þetta af," sagði Gascoigne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×