Fótbolti

Katanec: Við erum bjartsýnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Srecko Katanec, landsliðsþjálfari Slóveníu, segir að undirbúningur síns liðs fyrir landsleikinn gegn Íslandi í kvöld hafi gengið vel.

Katanec tók nýverið við þjálfun landsliðsins í annað sinn á ferlinum en leikurinn í kvöld verður fyrsti mótsleikur Slóvena undir hans stjórn í meira en áratug.

„Undirbúningurinn hefur gengið vel. Strákarnir hafa verið duglegir og áhugasamir á æfingunum. Við erum bjartsýnir en vitum að þetta verður ekki auðvelt," sagði Katanec á blaðamannafundi í gær.

Vangaveltur hafa verið um hvernig leikkerfi Katanec muni notast við í leiknum í kvöld en þriggja manna varnarlína hans í æfingaleik liðsins gegn Bosníu í síðasta mánuði þótti valda vonbrigðum, enda tapaðist leikurinn 3-0.

„Þið sjáið leikkerfið þegar leikmenn hlaupa inn á völlinn. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur að spila vel. Það er líka heil æfing eftir og margt sem getur gerst fram að leiknum," sagði Katanec við blaðamenn í gær.

Þess má geta að Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands, telur líklegast að Katanec muni halda sig við sama leikskipulag og í áðurnefndum leik gegn Bosníu.

Katanec segist finna fyrir pressu fyrir þennan leik, eins og reyndar alla leiki. „Ég hugsa ekki um hvað gerist ef við töpum. Ekki heldur ef við vinnum. Laugardagurinn verður eins og hver annar dagur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×