Fótbolti

Markahæsti leikmaðurinn í felum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Milivoje Novakovic.
Milivoje Novakovic.
Milivoje Novakovic er langmarkahæstur af núverandi landsliðsmönnum Slóvena en hann gat lítið æft í vikunni vegna tannpínu.

Srecko Katanec, landsliðsþjálfari Slóvena, sagði að Novakovic væri búinn að jafna sig og gæti spilað með liðinu í kvöld.

Novakovic, sem er 33 ára gamall, hefur skorað nítján mörk með landsliðinu en aðeins Zlatko Zahovic hefur skorað fleiri. Zahovic skoraði 35 mörk með landsliðinu á tólf ára landsliðsferli sem lauk árið 2004.

Fyrir rúmu ári síðan tilkynnti Novakovic reyndar að hann væri hættur að spila með landsliðinu en hann dró þá ákvörðun til baka í upphafi ársins. Leikurinn í kvöld yrði því hans fyrsti landsleikur í langan tíma.

Slóvenskir blaðamenn hafa beðið alla vikuna eftir tækifæri til að ræða við Novakovic en hann hefur aldrei verið í hópi þeirra leikmanna sem hafa verið sendir til að ræða við fjölmiðlamenn, ýmist fyrir æfingar liðsins eða á blaðamannafundum.

Novakovic hefur þó æft af kappi síðustu tvo daga og var lofaður af þjálfara sínum í gær. „Hann var að glíma við smá óþægindi vegna tannpínu en hann er tilbúinn. Það er slæmt að hann hafi misst af hinum leikjum liðsins í undankeppninni."

Novakovic er á mála hjá Köln í Þýskalandi en leikur nú með japanska liðinu Omiya Ardija sem lánsmaður. Hann hefur aðallega spilað í Þýskalandi og Austurríki á sínum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×