Fótbolti

Kosta Ríka krefur FIFA um nýjan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Forráðamenn Knattspyrnusambands Kosta Ríka heimta að leikur liðsins á móti Bandaríkjunum í undankeppni HM 2014, sem fram fór í Colorado á föstudaginn var, verði spilaði upp á nýtt. Bandaríkin vann leikinn 1-0 en um tíma íhugaði dómari leiksins að flauta leikinn af vegna snjókomu.

Clint Dempsey, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Tottenham, skoraði eina mark leiksins strax á 16. mínútu en eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan voru aðstæður afar erfiðar og þá sérstaklega í seinni hálfleiknum.

Knattspyrnusamband Kosta Ríka hefur nú sent greinargerð til Alþjóðaknattspyrnusambandsins þar sem sambandið vill fá nýjan leik.

Rökin fyrir nýjum leik eru meðal annars þau að leikmenn voru í mikilli meiðslahættu og gátu ekki beitt sér, snjórinn gerði leikmönnum mjög erfitt fyrir að spila boltanum og þá voru starfsmenn stanslaust að trufla leikinn með því að koma inn á völlinn til að moka snjó af línunum.

Kosta Ríka menn vilja líka að dómurum leiksins verði refsað fyrir að stoppa ekki leikinn þegar ljóst var í hvað stefndi.

Leik Norður-Írlands og Rússlands í undankeppni HM sem átti að fara fram í Belfast á föstudag og síðan á laugardag var að lokum frestað alveg vegna veðurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×