Fótbolti

Messi hefur áhyggjur þunna loftinu í Bólivíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það búast allir við öruggum sigri Argentínu á Bólivíu í undankeppni HM í nótt en besti knattspyrnumaður heims, Lionel Messi, er ekki búinn að gleyma hvað gerðist síðast þegar argentínska landsliðið mætti til La Paz.

La Paz er í 3,650 metra hæð og það hefur lengi verið umdeilt að Bólivíumenn fái að spila heimaleiki sína þar. Það hefur sín áhrif eins og Messi og félagar geta borið vitni um.

Argentínumenn töpuðu nefnilega 1-6 þegar þeir heimsóttu La Paz síðast í undankeppni HM 2010. Messi spilaði allar 90 mínúturnar í þeim en Angel Di Maria fékk rauða spjaldið á 64. mínútu í stöðunni 1-4.

Argentínumenn eru með fjögurra stiga forskot á toppi Suður-Ameríkuriðilsins en þeir hafa náð í 23 stig út úr 10 leikjum. Bólivía er 15 stigum og átta sætum neðar.

„Við höfum ekki afrekað neitt ennþá. Við erum að fara að mæta Bólivíu og þeir eru erfiður heim að sækja," sagði Lionel Messi á blaðamannafundi.

„Það vita allir hvað gerðist síðast en við ætlum okkur að ná jákvæðum úrslitum í þetta skiptið," sagði Messi.

Bólivía tapaði 0-5 fyrir Kólumbíu í síðasta leik sem var á útivelli en Argentína vann 3-0 sigur á Venesúela á sama tíma. Bólivía vann hinsvegar 4-1 sigur á Luis Suárez og félögum í Úrúgvæ í síðasta heimaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×