Fótbolti

Afhausaði vin sinn eftir fótboltarifrildi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmaður Barcelona í Írak hefur verið handtekinn eftir að hafa skorið hausinn af vini sínum, stuðningsmanni Real Madrid. Heimildarmaður úr innanríkisráðuneytinu í Írak staðfestir þetta við fjölmiðilinn Arabstoday.

Vinirnir áttu í rifrildi á mánudagskvöldið í borginni Aldjaarh. Samkvæmt heimildarmanninum færðist hiti í leikinn þegar stuðningsmaður Barcelona tók fram hníf, stakk vin sinn nokkrum sinnum áður en hann afhausaði hann frammi fyrir vegfarendum.

„Vitni að atburðinum tóku árásarmanninn höndum og hringdu í lögreglu sem mætti strax á vettvang áður en haldið var með manninn til yfirheyrslu. Farið var með líkið til skoðunar hjá réttarmeinafræðingi," sagði heimildarmaðurinn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem upp úr sýður hjá íröskum stuðningsmönnum erkifjendanna, Barcelona og Real Madrid. Í apríl á síðasta ári særðust fjölmargir stuðningsmenn liðanna í óeirðum sem brutust út á kaffihúsi í borginni Karbala í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×