Innlent

Mikil reiði vegna fréttaflutnings af nauðgunarmáli

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Andrés segir stöðina verða að bregðast við.
Andrés segir stöðina verða að bregðast við.
Bandaríska fréttastöðin CNN hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir umfjöllun sína um nauðgunarmálið í Steubenville, Ohio.

Þegar stöðin greindi frá því að sakborningarnir hefðu verið dæmdir virtist sem öll samúð fréttamanna CNN lægi hjá þeim, og ekki var einu orði minnst á brotaþola.

Í kjölfarið hefur rignt inn kvörtunum á Facebook-síðu CNN, bloggarar og minni fréttastofur hafa fjallað um málið, og undirskriftasöfnun hefur verið sett af stað þar sem fréttastofan er krafin um afsökunarbeiðni. Rúmlega 100 þúsund manns hafa skrifað undir á rétt tæpum sólarhring.

„Ég held þeir hljóti að þurfa að fara að tjá sig um málið," segir Andrés Jónsson almannatengill, og segir að algengt sé að stærri fréttamiðlar bíði eftir að þeir minni taki af skarið í umfjöllunum um viðkvæm mál.

„Nú eru þessir minni miðlar eins og Huffington Post farnir að fjalla um málið og þá mega fleiri tjá sig um þetta. Þetta er alltaf svona tröppugangur. Svo þegar stóru miðlarnir byrja þá neyðast þeir hjá CNN til að bregðast við, en það er spurning hvernig þeir gera það."

Andrés segir CNN hafa átt erfitt með að fóta sig undanfarið vegna sívaxandi pólitískrar slagsíðu keppinautanna, MSNBC og Fox News.

„CNN hefur misst áhorf vegna hlutleysis síns og hafa því brugðist við með því að fara meira út í gula fréttamennsku og skoðanaþætti þar sem alls kyns fólk er þáttastjórnendur, svona eins og viðkomandi þáttastjórnandi í þessu máli."

Facebook-síða CNN fær lítinn frið um þessar mundir.
Borgar sig alltaf að bregðast strax við

Andrés nefnir önnur dæmi um reiði gegn sjónvarpsþáttastjórnendum, til dæmis Keith Olbermann hjá MSNBC og Piers Morgan hjá CNN.

„Núna beinist reiðin hins vegar meira gegn allri sjónvarpsstöðinni frekar en einum sjónvarpsmanni og þá er þetta erfiðara. En þeir geta tekið ábyrgð með því að láta einhvern fara, láta einhverja segja af sér. Þá eru þeir að sýna að þeir taki málið alvarlega. Þá þyrftu þeir auðvitað að biðja fórnarlambið afsökunar og segjast ætla að grípa til ráðstafana svo þetta endurtaki sig ekki, fræða starfsfólk sitt og eitthvað slíkt."

En er ekki óæskilegt að bíða svona lengi með að koma með yfirlýsingu?

„Það er algengt að menn freistist til að bíða aðeins, en langflest dæmi sýna að það borgar sig alltaf að bregðast við strax. Í þessu tilfelli átta ég mig ekki á því af hverju þeir eru að bíða. Það liggur frekar ljóst fyrir að þetta var mjög ósmekkleg umfjöllun og ég hefði haldið að það væri frekar einfalt fyrir þá að biðjast velvirðingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×