Innlent

Missti húsið og hreinsaði út innréttingarnar

Karlmaður var dæmdur í fjögurra mánaða langt fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir skilasvik.

Maðurinn hreinsaði innréttingar út úr húsnæði í Grindavík sem hann hafði misst í hendur Íslandsbanka árið 2009. Meðal þess sem hann fjarlægði var mestur hluti eldhúsinnréttingar, helluborð, bakaraofn, háfur, baðherbergisinnrétting, sturtuklefi, handlaug, blöndunartæki og svo skemmdi hann innihurðir.

Maðurinn sagðist meðal annars hafa skipt um innréttingar í hluta hússins vegna rakaskemmda.

Dómurinn taldi skýringar mannsins ekki trúverðugar og dæmdi hann í fjögurra mánaða fangelsi. Vegna mikils dráttar á málinu, en rannsókn hófst árið 2009, þá þótti réttast að skilorðsbinda dóminn í þrjú ár.

Íslandsbanki krafðist þess að fá tæpar tvær milljónir í miskabætur en þeirri kröfu var vísað frá dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×