Íslenski boltinn

David James aðstoðarþjálfari ÍBV?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ef David James spilar með ÍBV í Pepsi-deildinni í sumar verður hann einnig aðstoðarþjálfari liðsins.

Þetta staðfesti Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, í samtali við Fótbolta.net í dag en James ræddi einnig við fjölmiðlamenn eftir leikinn.

„Hermann hefur verið frábær gestgjafi. Hann er góður vinur,“ sagði James við fjölmiðlamenn í Egilshöll í dag en viðtalið við hann má sjá hér.

„Ég vil gjarnan semja við liðið því Hermann er frábær náungi. Við skulum sjá til. Hann þarf þá að gefa mér eitthvað annað að borða en bara pitsur,“ sagði James í léttum tón.

„Þetta hefur verið góð ferð hingað til. Ég æfði aðeins með strákunum í gær og við Hermann höfum líka verið að ræða um þjálfunina. Ég er að taka þjálfargráðu heima og ég yrði þá honum til aðstoðar.“

Hann fylgdist með ÍBV spila gegn Fjölni í Lengjubikarnum í dag en leiknum lauk með 2-2 jafntefli, eftir að Fjölnir hafði komist 2-0 yfir.

James kom til landsins fyrr í vikunni og dvelur hér yfir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×