Innlent

Þrjú rán síðastliðinn sólarhring

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Þrjú ofbeldisrán hafa verið framin í verslunum á höfuðborgarsvæðinu síðasta sólarhringinn þar af tvö í 10-11. Þrír menn voru handteknir nú síðdegis í tengslum við eitt þeirra.

Tveir grímuklæddir menn komu á miðnætti inn í verslun 10-11 í Þverbrekku í Kópavogi og höfðu í hótunum við starfsstúlku, tóku hana hálstaki og neyttu til að opna peningakassa. Mennirnir hrifsuðu lítilræði af peningum og komust undan. Starfsstúlkuna sakaði ekki samkvæmt upplýsingum frá talsmanni 10-11 en henni var þó mjög brugðið.

Um svipað leyti fór maður, sem huldi andlit sitt með klút, inn í Pétursbúð í Vesturbænum og hótaði þar starfsstúlku með einhverju sem líktist hníf og skipaði henni að opna peningakassann. Þaðan tók hann um fimmtán þúsund krónur og hvarf út í myrkrið. Starfsstúlkan er að sögn eiganda búðarinnar ómeidd.

Þá var þriðja ránið framið um hádegisbil í dag og það í annarri 10-11 verslun. Grímuklæddur maður fór inn í 10-11 við Seljaveg í Reykjavík og ógnaði þar starfsmanni með glerbroti. Sá hrifsaði lítilræði af peningum úr peningakassanum og komst undan á hlaupum. Engan sakaði í ráninu en þrír menn voru stuttu síðar handteknir vegna málsins segir í tilkynningu frá lögreglu.

Svo virðist sem enginn hafi verið handtekinn vegna ránanna sem framin voru í kringum miðnætti en fréttastofa hefur í dag ítrekað reynt að ná sambandi við lögreglustöðvarnar sem fara með rannsókn málanna án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×