Enski boltinn

Clarke: Liverpool að spila besta fótboltann í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Jordan Henderson.
Steven Gerrard og Jordan Henderson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steve Clarke, stjóri West Brom og fyrrum aðstoðarmaður Kenny Dalglish hjá Liverpool, telur að Liverpool sé farið að njóta ávaxta leikmannakaupa Dalglish. Lærisveinar Clarke heimsækja Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Jordan Henderson, Stewart Downing og Jose Enrique verða væntanlega allir í byrjunarliði Liverpool í leiknum í kvöld.

„Það kemur mér ekki mikið á óvart að ungu leikmennirnir sem Kenny keypti séu farnir að blómstra. Það tekur alltaf tíma fyrir leikmenn að koma sér fyrir hjá stóru félagi eins og Liverpool," sagði Steve Clarke við BBC.

„Luis Suarez er virkilega kominn á flug og á þessum tímapunkti þá er Liverpool líklega að spila besta fótboltann í ensku úrvalsdeildinni," sagði Steve Clarke.

Steve Clarke mætir í kvöld á Anfield í fyrsta sinn síðan að hann og Kenny Dalglish voru látnir fara fyrir 18 mánuðum síðan og Brendan Rodgers tók við.

Liverpool hefur gert 2-2 jafntefli við Arsenal og Manchester City í síðustu leikjum sínum en var með forystu í seinni hálfleik í þeim báðum.

„Brendan er með annan leikstíl en Kenny. Liverpool hefur samt alltaf reynt að spila góðan fótbolta. Það tók sinn tíma fyrir hugmyndir Brendan að komast til skila. Það sést að liðið er farið að ná betur saman og farið að spila þann fótbolta sem Brendan vill að liðið spili," sagði Clarke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×