Enski boltinn

Mancini: Balotelli var mér eins og sonur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segist afar leiður yfir brotthvarfi Mario Balotelli en talið er að hann muni semja við AC Milan í dag.

Þetta sagði hann eftir leik City gegn QPR í ensku úrvalsdeildinni í gær. Balotelli hefur verið hjá City í tvö og hálft ár en margoft komið sér í fréttir fyrir hin ýmsu uppátæki sín, bæði innan vallar sem utan.

Svo virðist sem að átök þeirra Balotelli og Mancini á æfingasvæði City í upphafi mánaðarins hafi gert útslagið fyrir Mancini og forráðamenn City - þó svo að hann hafi ekki viljað viðurkenna það opinberlega.

„Við erum allir svo leiðir vegna þess að Mario var mikilvægur leikmaður fyrir okkur," sagði Mancini við enska fjölmiðla.

„Við unnum ensku úrvalsdeildina og enska bikarinn með Mario. En þetta er mikilvægt tækifæri fyrir hann - að komast aftur til Ítalíu og spila fyrir stórt félag í Mílanó. Hann fær nú tækifæri til að vera með fjölskyldu sinni á ný."

„Ég held að hann geti bætt sig og ég yrði ánægður með ef hann yrði einn daginn einn af bestu knattspyrnumönnum heims," bætti Mancini við.

„Mario var mér eins og sonur. Ég gaf honum sitt fyrsta tækifæri í ítölsku deildinni þegar hann var sautján ára gamall. Stundum getur maður verið í uppnámi vegna hans en eftir það er hann mjög indæll drengur. Ég hef gefið öllum mínum leikmönnum mikinn tíma en kannski hefur Mario fengið meira en aðrir."

„Mario skoraði mörg mikilvæg mörk gegn City, eins og gegn United á útivelli. Hann stóð sig vel. Við munum allir sakna hans og leikmennirnir voru mjög leiðir þegar hann fór frá hótelinu. Mario er góður drengur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×